Joensuu er í Norður Karelíu í Austur Finnlandi og hér búa um 76 þúsund manns. Vinur minn Kari Kola er meðan þeirra og hingað er ég kominn til að ljósmynda Botania Visual Festival. Þetta er lítil listahátið, haldin í grasagarði Joenssu, þar sem listamenn frá öllum heiminum sína verk sín.
Kari bjargaði Botania frá glötun með því að kaupa garðinn og byggingarnar af háskólanum og hefur unnið þrekvirki í að hreinsa upp, byggja við og endurbæta staðinn. Hann nýtur engra styrkja og fer ótrúlega langt á eldmóði sínum. Kari er einn af þeim sem veit ekki af boxinu sem stundum er talað um að fara út fyrir.
Kari á og rekur einnig fyrirtækið Valoparta sem sér um uppsetningar á ljósum, hljóðbúnaði og að reisa svið fyrir alls konar viðburði. Ástríðan hans er þó að skapa listaverk með ljósum og hann hugsar stórt. Til þess að hann sé spenntur þurfa svæðin yfirleitt að ná yfir nokkra ferkílómetra.
Með honum hef ég ferðast víða um heim til að skrásetja verkin hans. Þegar uppi er staðið eru það einungis myndir og video sem standa eftir og hann leggur því mikla áherslu á þennan þátt. Ég er hluti af teymi sem vinnur vel saman, en auk mín er kvikmyndagerðarmaður sem tekur upp video, ljósmyndari sem sérhæfir sig í 360 gráðu myndum og dróna-flugmaður.
Þessi verkefni eru skemmtileg og krefjandi. Það eru gífurlegar andstæður í ljósmagni, sterkum litum og oftast þarf ég að komast yfir stór svæði. Hér í Botania er svæðið reyndar vel viðráðanlegt og allt til alls, enda stutt í höfuðstöðvarnar.
Til að fanga dýptina þarf ég að að taka myndir á lægstu stillingu ljósnæmnis sem ég kemst upp með. Það fer allt eftir því hversu mikil hreyfingin er á ljósunum og eins hvort frysta þurfi hreyfingu fólks. Það er mjög auðvelt að sprengja litarásirnar alveg því bjartasti hluti LED ljóssins er nánast alveg hreinn litur. Á sama tíma þarf umhverfið að sjást a.m.k. að einhverju leyti svo konstrastinn í myndefninu er gífurlegur. Að blanda saman myndum með ólíkum lýsingartíma og útbúa HDR útgáfu gengur stundum, en yfirleitt er hreyfing á ljósunum eða í umhverfinu á milli mynda.
Búnaðurinn sem ég tók með í þetta sinn voru Sony A7rIII og Pentax 645z ásamt ýmsum linsum. Þessar vélar eru mjög áþekkar hvað varðar tóna- og litadýpt. En sökum þess að skynjarinn í Pentax 645z er stærri hefur hún örlítið forskot eins og sjá má hér á samanburði dxomark.
Hér að ofan má sjá hvað er hægt að ná miklu út úr skuggasvæðum á Pentaxnum. Ég er ég búinn að lýsa upp tæp þrjú ljósop auk þess sem skuggasvæði hafa verið opnuð mikið. Samt sem áður er myndin ekki bara nothæf heldur ótrúlega laus við suð (noise). Stillingarnar fyrir myndina í Lightroom eru svona:
Að gera negatívan kontrast hjálpar í svona tilfellum. Ef myndin verður of flöt má setja inn millitóna-konstrast með hjálp Clarity eða Texture. Ég þurfti þó ekki að snerta á því fyrir þessa mynd.
Í síðustu uppfærslu á litaprófílum fyrir Lightroom bötnuðu litirnir mikið fyrir Pentaxinn. Fyrri prófíll frá Adobe var mjög slakur og það þurfti talsverða vinnu til að ná góðri útkomu. Ég nota því líka CaptureOne með því að "plata" forritið með breytingu á EXIF upplýsingum í metadata. Þá opnast skrárnar sem PhaseOne IQ250 myndir, en skynjarinn í því baki er sá sami og í Pentaxnum. Nú orðið geri ég það sjaldnar, þó stundum finnist mér þó CaptureOne hafa vinninginn, sem fer aðallega eftir viðfangsefninu.
Þeir sem halda því enn fram að filman sé betri en stafræn tækni mættu gjarnan sýna mér hvernig þeir myndu leysa svona verkefni á hliðrænan hátt :)
Comments