ICELAND - THE CONTRASTS IN NATURE
Bókin er 25 x 25 cm að stærð, 144 síður og inniheldur 130 landslagsmyndir frá Íslandi teknar á ferðum mínum um landið síðustu 10 ár.
.
Eins og titillinn gefur til kynna sýnir bókin andstæðurnar í landinu. Umbrotið er einfalt, hver mynd fær rými til að anda og opnurnar eru andstæður - eða hliðstæður.
Hér er á ferðinni persónuleg bók sem er fallega prentuð á Gardamatt smooth 170g pappír. Myndirnar eru lakkaðar til að hámarka dýpt tóna og lita. Hún er harðspjalda, með álímdri kápu sem er húðuð mattri áferð sem gerir hana mjúka viðkomu.
Bókin er tilvalin til gjafa, ekki síst til erlendra ættingja, vina eða viðskiptavina.
Í tilefni útgáfu bókarinnar hélt ég ljósmyndasýningu í Gallery Grásteini að Skólavörðustíg 4. Á sýningunni voru tólf valdar myndir úr bókinn. Þær eru til sölu í takmörkuðu upplagi; þrjú merkt eintök auk eintaks listamanns.
“Ísland er ekki bara eitthvað land – það er meira eins og pláneta. Að vera héðan gefur manni einstaka tilfinningu fyrir því að tilheyra og skipta máli. Og vegna þess að landið og við erum eitt verður verndun þess ekki bara áhugamál heldur lífsspursmál.
En til að vilja vernda eitthvað þarftu fyrst að vita að það er til. Sjá það annað hvort með berum augum eða á mynd. Þannig færðu tækifæri til að tengjast því tilfinningaböndum og þegar sú tenging myndast vaknar köllun til að vernda það.
Ég fékk mína fyrstu myndavél fimm ára gamall. Ljósmyndun varð snemma hluti af lífi mínu þar sem faðir minn er ljósmyndari. Á mínum æskuárum ferðaðist ég um allt land með honum auk þess sem við flugum í lítlli Cessnu til að taka loftmyndir. Ég fékk þannig einstakt tækifæri til að sjá landið bæði úr lofti og í nærmynd og eignast þetta dýrmæta samband.
En þetta tækifæri hafa ekki allir fengið og það er því von mín að myndirnar mínar geti fært fólk nær þeim fjársjóði sem í landinu býr og um leið verði til fleiri talsmenn þess og verndarar. “ - CL
Þakklátur fyrir að njóta náttúru þessa lands og sem virkur verndari hennar mun ég gefa 10% af tekjum mínum af bókinni til Landverndar, sem er þátttakandi í 1% for the Planet.
Um 1% for the Planet
1 % for the Planet var stofnað árið 2002 af Yvon Chouinard, stofnanda Patatagonia,
og Craig Mathews, stofnanda Blue Ribbon Flies. Þeir vildu auðvelda einstaklingum og fyrirtækjum að taka þátt í virkri umhverfisvernd, með því að leiða saman styrktaraðila og trausta framkvæmdaraðila í umhverfismálum.
Um Landvernd
Landvernd eru frjáls félagasamtök sem starfa að umhverfismálum til að vernda og bæta lífsgæðin í landinu. Hlutverk Landverndar er að standa vörð um íslenska náttúru og vera virkur þátttakandi í stefnumótun, fræðslu og upplýstri ákvarðanatöku í málum er varða landnotkun, auðlindir og umhverfi.