top of page
Search

Vorkvöld í Reykjavík

Heimaey VE-1 - Slippurinn í Reykjavík.

Ég ólst upp í úthverfi og bjó í úthverfi í 40 ár. Síðustu tíu ár hef ég hins vegar búið í Vesturbænum. Er ég þá orðinn Vesturbæingur? Eða kannski getur maður ekki verið sannur Vesturbæingur nema að fæðast og alast upp hér. Svona eins og með Gaflarana í Hafnarfirði?


Alla vega, um tíu-leytið í gærkvöldi var birtan svo falleg, inn um svefnherbergisgluggan á Vesturgötunni, að ég bara varð að skottast út með myndavél. Ég byrjaði á því að rölta niður að slippnum.


Heimaey VE-1 var þar í allri sinni dýrð. Það er búið að mála kjölinn og þeir eru lang komnir með restina af skrokknum. Það er eitthvað magnað við það að standa undir öllu þessu stáli. Sjá hversu risavaxin skrúfan er. Virða fyrir sér suðurnar og öll smáatriðin í stálinu, sem vanalega eru hulin augum okkar.


Andarsteggur og Óðinn.

Því næst heilsaði ég upp á Óðinn og Magna. Óðinn tók þátt í öllum þremur þorskastríðunum á 20. öld. Ég velti því fyrir mér hversu margir Íslendingar hafa heimsótt Sjóminjsafnið og fengið leiðsögn um Óðinn. Ég man enn eftir því þegar ég fór um borð í HMS Belfast í London (líklega um 12 ára). Ég hef ekki enn farið um borð í Óðinn. Hvaða rugl er það?


Hún er annars falleg, þessi hefð að skýra dráttarbáta Reykjavíkurhafnar sama nafni. Fyrsti drátt­ar­bát­ur Reykja­vík­ur­hafn­ar kom til lands­ins 1928 og fékk nafnið Magni. Síðan þá hef­ur það verið hefð hjá höfn­inni, að skíra öfl­ug­asta drátt­ar­bát­inn því nafni. Magni, sem liggur við hlið Óðins, var fyrsta stálskipið sem var smíðað hér á landi. Hann var smíðaður árið 1954 í Stálsmiðjunni í Reykjavík.


Magni hvílir sig í höfninni við Sjóminjasafnið.

Ég gekk svo eftir Grandagarði út á Norðurbakkann. Sólin var við það að setjast. Það voru ský við sjóndeildarhringinn, svo ljósið var orðið mýkra. Ég virti fyrir mér Hörpu og sá að ljósið kallaði fram alla litina í glerinu. Best að hraða sér og sjá hvort ég nái að fanga húsið í þessu fallega ljósi.


Örfyrisey lá við Norðurbakkann. Hún var smíðuð árið 1988 af Sterkoder Verft A/S í Noregi, "Heja Norge!" - hugsaði ég þegar ég fletti þessum upplýsingum upp á netinu, enda hálf norskur :) Ég smellti tveimur myndum af þessu mikla aflaskipi Brims og gekk áfram í austur að Hörpu.



Og viti menn, var ekki seglskúta að dóla sér inn í skútuhöfnina við Hörpu. "Þeir fiska sem róa" hugsaði ég, frekar ánægður með mig. Þessi mynd hér að neðan er talvert sterkari vegna þess að skútan er þarna. Eða það finnst mér alla vega. Og ekki er tunglið heldur að skemma mikið fyrir. Vorkvöld í Reykjavík. Er eitthvað fegurra?


Skúta skríður til hafnar við Hörpu.

Þegar skútan var komin í höfn var kominn tími til að halda heim. En ég heyrði allt í einu eitthvað undarlegt hljóð. Það kom frá Þúfu, undarlegasta ferðmannastað landsins. Upp á Þúfu var þessi fína buna. Þúfan þarf jú að vera græn. Og eins merkilegt og það er, á þessu mikla rigningarlandi, þá hefur þetta listaverk liðið fyrir það, að grasið hefur oft fölnað á sumrin. Þúfan hefur verið gul en ekki græn.


Ég tók þessa mynd og ætlaði að halda heim þegar ég kom auga á Tjald sem vappaði í makindum sínum upp á þúfunni.


Bunan á Þúfu.

Það er eins og hann eigi heima í fiskþurkkunar hjallinum, þar sem hann stendur þarna og ber við himinn, vinstra megin við hjallinn. Þetta er sko alvöru Tjaldur. Er ekkert að búa sér til hættulegt hreiður í vegkannti, eins og félagar hans víða um land. Hér er óbrúkuð höll upp á Þúfu, sem enginn hefur gert tilkall til. Og útsýnið - maður lifandi!


Tjaldur með metnað.

Það var sáttur ljósmyndari sem gekk heim á leið í gærkvöldi. Stundum eru ævintýrin bara í bakgarðinum.


Góðar stundir.

182 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page