Stundum kynnist maður fólki sem hugsar stærra en aðrir. Kari Kola tilheyrir þeim hópi. Ég hitti hann fyrst sumarið 2015 þegar hann heimsótti okkur Maríu hér á Íslandi. Þau höfðu unnið saman í Norrænu verkefni sem bar nafnið Nordisk Ljus. Ungmenni frá öllum Norðurlöndunum – dansarar, leikarar og tónlistarfólk – vann í hópum vítt og breitt um Norðurlöndin að verkefni þar sem allir hóparnir sameinuðust í magnaðri sýningu á Finnlandi. Þar var Kari í lykilhlutverki að skapa sjónrænu umgjörðina.
Þegar hann kom til Íslands var ég upptekinn við að leiðsegja tveimur ljósmyndurum frá Þýskalandi. Kari og María slógust eiginlega með í ferðina, eltu okkur um suðurströndina og gistu á sömu stöðum. Hópurinn náði vel saman og þessi óvænta viðbót var stórskemmtileg fyrir alla. Í framhaldinu spurði hann hvort ég hefði áhuga á því að mynda fyrir sig verkefnin sem voru í farvatninu. Ég var ekki lengi að segja já við því.
Það fyrsta sem ég ljósmyndaði fyrir hann var innsetning í Prag þar sem hann lýsti upp eyjuna Střelecký ostrov. Með því að lýsa upp tré og skapa stemningu með ljósi, þoku og hljóði bjó hann til fallegt umhverfislistaverk sem hann hefur einnig sett upp í Cascais í Portugal og á ljóshátiðnni Glow í Einhoven. Ég náði því miður ekki að fara til Cascais sökum anna við leiðsögn en Glow myndaði ég í Nóvember 2016. Ég fór líka til Istanbul að mynda Light is here, þar sem Kari lýsti upp fjóra turna – Zorlu Center – á fyrstu ljósahátið sem sett hefur verið upp í Instanbul.
Þessi verkefni eru með því skemmilegasta sem ég hef gert. Það er frískandi tilbreyting og krefjandi verkefni að fanga stemmninguna sem Kari býr til. Að fá að vinna með honum og teyminu hans er frábært. Finnar eru magnað fólk og mér finnst vera óútskýranleg djúpstæð tenging á milli Íslendinga og Finna.
Í ár stendur mikið til, því Finnland fagnar 100 ára afmæli sjálfstæðis síns. Kari hefur verið ráðinn til þess að gera risavaxnar innsteningar á sex stöðum um allt Finnland. Ég mun aftur bætast við teymið og skrásetja hluta þessara verka í desember. Til að undirbúa mig fer ég til Finnlands í byrjum mars til að skoða aðstæður. Ég hlakka til að deila því með ykkur.
Comments