top of page
Search
Writer's pictureChristopher Lund

Hvers vegna gaf ég út ljósmyndabók?

Updated: May 5, 2020


Í október 2019 gaf ég út mína fyrstu ljósmyndabók - Iceland - The Contrasts in Nature. Mig langar að segja ykkur frá ferlinu og hvers vegna ég gaf út þessa bók.


Meðgöngutíminn var langur. Ég hafði byrjað mörgum sinnum á bókinni síðastliðin ár. Þar sem ég er í eðli mínu hlédrægur tók ég hverri truflun fagnandi. En svo kom að því að ég fann að ég varð að klára þetta verkefni.


Fyrir mér er ljósmyndun meira en starf. Hún er órjúfanlegur hluti af sjálfum mér. Þess vegna var það stórt skref fyrir mig að þora að gefa út bók. Ótti við höfnun heldur mörgum okkar í gíslingu. Öll viljum við vera samþykkt og að fólki líki vel við okkur. Ég er engin undantekning. Að komast yfir þann ótta var stórt og nauðsynlegt skref fyrir mig.


Ég finn að í kjölfarið er ég sterkari, bæði sem ljósmyndari og manneskja. Ferlið var erfitt en um leið hreinsandi. Maður þarf að taka afstöðu - ákveða að standa með sumu og sleppa takinu af öðru. Fyrir mann með fullkomunaráráttu var þetta líklega ein besta æfing í æðruleysi sem ég gengið í gegnum.



Bókin fór á markað þar sem fyrir er mikið framboð. Ef maður setur eingöngu fókusinn á sölumöguleika er tilhneiging til þess að gera bók sem uppfyllir ákveðin skilyrði varðandi uppbyggingu, myndaval og texta. Nánast allar ljósmyndabækur um Ísland eru hugsaðar sem minjagripir fyrir ferðamenn sem heimsækja landið. Það býr til ákveðinn ramma sem ég fann að hentaði mér ekki.


Ég gerði þessa bók því fyrst og fremst fyrir sjálfan mig. Ég ákvað að fylgja eigin tilfinningu varðandi myndaval og framsetningu. Ég vildi gera bók sem væri persónuleg, einföld í uppbyggingu og endurspeglaði mig sem ljósmyndara og manneskju. Mig langaði að gefa myndunum rými án myndatexta og para saman myndir á opnur fremur en að hafa umbrotið margslungið með textum.



Ég fór með uppkast af bókinni til Egils í Forlaginu. Honum leist vel á - en vildi fá að sýna sínu fólki hana áður en hann tæki ákvörðun um útgáfu. Eftir nokkra daga fékk ég svar um að þau vildu gefa bókina út. Ég var í senn ánægður og kvíðinn. Nú gat ég varla bakkað út úr þessu!


Það er merkilegt að fylgjast með huganum og hvernig hann vill stjórna. Egóið notar óttann til að taka völdin. Í hvert sinn er hollt að skoða þennan ótta og fara í gegnum hann. Stundum næ ég að gera það einn - stundum þarf ég hjálp. En í hvert sinn sem ég kemst í gegnum hann verð ég sterkari og læri eitthvað nýtt um sjálfan mig.


Að gefa út þessa bók var því andlegt ferðalag sem ég hefði ekki viljað missa af. Ég er stoltur af sjálfum mér og ánægður með viðtökurnar sem bókin hefur fengið. Ég veit að ég er ekki einn um það að vera að slást við sjálfan sig. Ég vona því að þessi stuttu skrif mín hvetji aðra til dáða í að komast yfir sinn ótta og koma sterkari út hinu megin. Lífið er gott!


267 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page