top of page
Search

Besta linsan í gönguferðina?

Updated: Aug 4, 2019

Ég fór á dögunum í sex daga gönguferð með Hálendisferðum að Fjallabaki. Frábær ferð í alla staði með góðum hóp af fólki undir tryggri leiðsögn Óskar Vilhjálmsdóttur.


Horft yfir Hólmsárbotna.

Ég hef í gegnum tíðina farið í þó nokkrar svona ferðir, enda ómetanlegt að stíga út úr hinu daglega amstri um stund, gerast farþegi og fá bara að njóta. Í þessum gír hleð ég mínar kreatívu rafhlöður og uppgvöta enn fleiri perlur í íslenskri náttúru. Það er þessum gönguferðum að þakka að ég fór í leiðsögunámið á sínum tíma, því mig langaði að ferðast meira og samtvinna það starfi mínu sem ljósmyndari.


Þegar pakkað er fyrir lengri göngur með ljósmyndabúnað er mikilvægt að hafa bakpokann léttan, því það þarf einnig að vera pláss fyrir aukafötin, vaðskóna og nestið. Hingað til hef ég yfirleitt gengið með D-SLR vél með almennri zoom linsu eins og 24-70mm og yfirleitt haft með eina 70-200mm aðdráttarlinsu. Myndavélina hef ég þá oftast haft um hálsinn og pakkað lengri linsunni niður ásamt hinu dótinu.


Í þetta sinn var ég svo lánsamur að fá lánaða Sony 24-105mm f/4 G-Master linsu hjá Origo. Mig langaði að prófa hana því ég hafði heyrt margt gott um þessa linsu, allmargir viðskiptavinir mínir hafa verið með hana sem sína standard linsu og verið mjög ánægðir. Hún er einnig með hristivörn sem kemur sér sértaklega vel þegar ekki er mögulegt að ferðast með þrífótinn með.


Ég ákvað líka að kaupa Peak Design Capture Clip til að geta fest myndavélina við aðra ólina framan á bakpokanum. Ég var ekki viss hvort Sony A7rIII ásamt 24-105mm linsunni yrði of fyrirferðarmikil eða þung fyrir þessa festingu en ákvað að láta á það reyna. Þetta reyndist virka mjög vel og mikill munur að geta fest vélina tryggilega á ólina og haft hendurnar frjálsar á meðan á göngu stendur. Ég geng með göngustafi og það er nánast vonlaust ef maður er með myndavél um hálsinn. Það er mjög einfalt og fljótlegt að smella vélinni í og úr þessari festingu og hún er með öryggislás til að tryggja vélina enn betur. Þegar rigndi smellti ég bara einfaldri sturtuhettu yfir vélina svo ég þurfti ekki að pakka vélinni niður á milli skúra.


Hvalur að Fjallabaki.

Það kom fljótt í ljós að ég hefði getað sleppt því að taka 70-200mm linsuna með í þessa ferð. Það er merkilegt hvað það munar miklu að vera með 105mm í lengri endann vs 70mm á svona göngu. Ég hef hingað til ekki haft mikla trú á þessu zoom sviði - þ.e. 24-105mm f/4, vegna þess að ég hef notað slíkar linsur með bæði Canon og Nikon D-SLR vélum (Nikon linsan var reyndar 24-120mm f/4) sem voru áberandi lakari linsur en 24-70mm f/2.8 frá sömu framleiðendum.


Þessi Sony linsa er eiginlega fáranlega góð sem alhliða linsa og því er ég farinn að hugsa um að skipta 24-70mm f/2.8 linsunni út fyrir hana. Get því óhikað mælt með henni fyrir þá Sony eigendur sem eru að leita að góðri ahliða linsu fyriri gönguferðirnar.297 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page