top of page
Search

Spegill, spegill...

Fyrir þremur árum keypti ég fyrstu Sony vélina mína. Það var Sony A7rII. Ég átti í ákveðnu ástar/ -hatursambandi við þá vél. Ég elskaði myndgæðin, hristivörnina og fókuskerfið - sérstaklega Eye-focus möguleikann. Ég hataði lélega rafhlöðuendingu og hversu óþarflega flókið það gat verið að breyta stillingum á henni. Ég var ekki tilbúinn að yfirgefa Nikon D-SLR og var því með tvö 35mm "full-frame" kerfi um tíma.

Louis Mendes, New York City. Pentax 645z, 74mm f/2.8

Svo kom tækifæri á að eignast Pentax 645z medium format með því að skipta út Sony fyrir Pentax. Ég stökk á það, jafnvel þó að Pentaxinn væri hugsanlega ákveðinn "dead-end" varðandi endursölu, enda markhópurinn fyrir svona vél talsvert minni. En ég sé ekki eftir því. Medium format opnaði nýja vídd fyrir mig og hefur karakter sem hvorki D-SLR eða spegillausar vélar hafa.


Svo kom uppfærsla í Nikon D850. Æðisleg vél og mikil bæting frá D810. En með aukinni upplausn skynjarans kom betur í ljós yfirburðir Sony hvað varðar skerpu og upplausn í linsum. Allar björtu Nikon prímurnar mínar áttu ekki roð í sömu brennivíddir frá Sony, Ziess - eða Sigma Art línuna. Linsur hafa allar sinn karakter, sem er sér kapituli út af fyrir sig. Skerpa er ekki endilega aðalatriðið en krómatískir feilar geta eyðilagt myndir í ákveðnum aðstæðum. Ég skipti út Nikon prímunum (35mm f/1.4, 58mm f/1.4 og 85mm f/1.4) fyrir Sigma Art og var í betri málum við að ljósmynda á ljósopi f/1.4 eða f/2.0. En það var samt eitthvað sem vantaði - a.m.k. fyrir hluta af þeim verkefnum sem ég þarf að leysa.

Sigma Art línan fyrir Sony E-mount.

Sko, ef ég væri bara að skjóta landslag þá myndi þetta ekki skipta neinu máli. Nikon D850 er D-SLR kóngurinn í landslagi og ákaflega góð vél. En fyrir önnur verkefni - þar sem fókusnákvæmni og þörf fyrir á að vinna á lægri lokarahraða án þrífóts er til staðar - þá er munurinn áþreifanlegur.


María Ellingsen. Sony A7rII, FE 55mm f/1.8 ZA

Það sem ég saknaði mest var hristivörnin í húsinu (sem virkar þá fyrir allar linsur óháð tegund) og Eye focus kerfið. Þessir tveir eiginleikar í Sony Alpha vélunum eru algjörlega magnaðir. Hlutfall skarpra og nothæfra mynda er einfaldlega hærra á þessum vélum við þess konar aðstæður. Því ákvað ég - eftir mikla yfirlegu - að losa Nikon búnaðinn minn og færa mig aftur í Sony.


Nú er komin þriðja kynslóð af A7r, þar sem rafhlöðuendingin er frábær og myndavélin er betur hönnuð og veðurvarin. Valmyndir fyrir stillingarnar eru ennþá of flóknar að mínu mati, en ný hönnun með fleiri sérsniðnum tökkum og valmyndum leysir þó þann vanda betur en á A7 rII.


Nú er ég að byggja upp linsusafnið fyrir Sony, er kominn með 24-70mm f/2.8 GM og 70-200mm f/2.8 GM. Ég lét svo skipta um lens mount á Sigma Art linsunum sem ég var búinn að kaupa fyrir Nikon. Með tíð og tíma hef ég hugsað mér að taka 16-35mm f/2.8 GM og jafnvel 100-400mm f/4.5-5.6 sem er alveg hreint mögnuð linsa. Nýja 400mm f/2.8 væri náttúrulega draumur, en aðeins of stór biti miðað við notkunarsviðið mitt (væri "no brainer" ef ég væri mikið að ljósmynda sport eða fugla).


Canon TS-E 24mm linsa á Sony Alpha.

Möguleikar á að nota linsur frá nánast hvaða framleiðanda með breytistykki er líka stór kostur varðandi Sony. Ég nota t.d. svokallaðar tilt/shift linsur reglulega og möguleikinn á að nota Canon TS-E 24mm f/3.5 á Sony A7rIII er algjör snilld. Nýju speglalausu vélarnar frá Nikon (Z6 og Z7) styðja ekki annað en linsur frá Nikon. Mér finnst það afleikur hjá Nikon, því akkúrat þessi möguleiki er einn af hornsteinum vinsælda Sony Alpha. Þannig gat Sony keypt sér tíma til að byggja upp linsusafnið sitt, sem nú er orðið ansi þétt, sérstaklega í ljósi þess hversu vel þeim hefur tekist upp gæðalega.


Það er hægt að stökkva á milli kerfa endalaust í takt við uppfærslur hjá framleiðendum. Það er dýrt spaug að skipta alveg um merki og fæstir gera það nema vera fullvissir um að með breytingunni fái þeir meira út úr búnaðnum en áður. Ég er afar sáttur við þessa breytingu og get nú valið verkfæri eftir því sem hentar. Pentaxinn þegar mig langar í medium format karakterinn og horfa í gegnum stóran og bjartan optískan skoðara - og svo Sony í þeim tilfellum þar sem fókusnákvæmni, hristivörn og hraði skiptir máli.

71 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page