Mun D-SLR verða undir?

Ég var að koma frá Madrid. Ég var þar að ljósmynda árlega ráðstefnu LS Retail. Þetta var í fyrsta skipti sem ég ákvað að nota alfarið Sony spegillausar myndavélar í svona verkefni. Fram að þessu hef ég valið að nota Nikon DSLR.
Ég hef nú átt Sony A7rII í eitt og hálft ár. Þó að þessar vélar séu góðar þá hafa þær sína galla. Helst er það slök ending á rafhlöðum og skortur á veðurþoli. Það tekur oft langan tíma að breyta stillingum á A7rII þar sem valmyndirnar eru flokkaðar á undarlegan hátt. Hönnunin ber þess merki að Sony hefur ekki áratuga reynslu í hönnun ljósmyndavéla fyrir fagmenn.

En nýja Sony A9 vélin lofar góðu. Sony hefur hlustað á notendur og bætt vélina á öllum þessum sviðum. Eins og Steve Jobs predikaði, þá snýst hönnun fyrst og fremst um virkni – fremur en útlit.
Hingað til hef ég ekki viljað taka undir það að spegillausar myndavélar muni útrýma DSLR. En nú þegar Sony, Fuji og meira að segja Hasselblad eru á góðri siglingu fer maður að spyrja sig hvort DSLR hönnun stafrænna myndavéla sé hreinlega á leiðinni út?
Fjárhagsvandræði Nikon eru staðreynd og fyrirtækið er að endurskipuleggja stefnu sína. Ég hef aldrei skilið afhverju Nikon og Canon þurfa að vera með svo margar DSLR vélar á markaði ætlaðar áhugamönnum. Það hlýtur að kosta mikinn tíma og peninga að innleiða sífellt nýjar framleiðslulínur af vélum sem fljótt á litið eru allar eins!
Það vantar fókus á atvinnuvélarnar. Nikon D810 er að verða þriggja ára gömul. Verðið á flagskip vélunum Nikon D5 og Canon 1Dx MII er allt of hátt. Sigma býður nú betri linsur fyrir allt að helmingsverð hinna. Það er því ekki undarlegt að salan dragist saman. Það er eins og þeir kunni ekki að keppa í nýju umhverfi.
Það er ljóst að þeir þurfa að bregðast hratt við ef þeir ætla ekki að missa viðskiptin. Það verður spennandi að sjá hvað gerist á þessu ári. Munum við sjá gömlu Risana vakna?